Innlent

Lögregla leitar enn mannsins

Stúlkan var í nágrenni heimilis síns þegar maðurinn kynnti sig fyrir stúlkunni sem lögreglumann og sagði henni að móðir hennar væri hætt komin eftir umferðarslys og hann ætti að aka henni á spítalann.
Stúlkan var í nágrenni heimilis síns þegar maðurinn kynnti sig fyrir stúlkunni sem lögreglumann og sagði henni að móðir hennar væri hætt komin eftir umferðarslys og hann ætti að aka henni á spítalann. Vísir/Anton Brink
Lögreglan í Kópavogi leitar enn manns um tvítugt sem nam níu ára gamalt stúlkubarn á brott í austurbæ Kópavogs síðdegis í gær. Einhverjar vísbendingar hafa þó borist til lögreglu sem verið er að kanna.

Stúlkan var í nágrenni heimilis síns þegar maðurinn kynnti sig fyrir stúlkunni sem lögreglumann og sagði henni að móðir hennar væri hætt komin eftir umferðarslys og hann ætti að aka henni á spítalann.

Þegar barnið var komið í bílinn ók hann með það sem leið lá upp á Mosfellsheiði. Við afleggjarann að Skálafelli lenti hann í snjókrapi og lét stúlkuna fara út úr bílnum. Þá ók hann á brott og skildi hana eina eftir. Um klukkan hálfsex, eða einni og hálfri klukkustund eftir að maðurinn nam barnið á brott, var lögreglu tilkynnt um að ökumaður jeppabifreiðar hefði ekið fram á stúlkuna á Þingvallavegi, blauta og kalda.

Samkvæmt lögreglu er ekki grunur um kynferðislega misnotkun en á móti kemur að ekki er vitað hver tilgangur mannsins var og ástæða er til að beina þeim tilmælum til foreldra að brýna fyrir börnum sínum að hafa varann á.

Maðurinn sem nam barnið á brott ók rauðri fólksbifreið. Hann er sköllóttur með svört gleraugu og með skegghýjung.

Atburðinn átti sér stað á hringtorginu við Álfhólsveg og Bröttubrekku, laust fyrir klukkan fjögur í gær, og þeir sem geta gefið upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í Kópavogi í síma 560-3041.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×