Innlent

Hópur fólks hefur einangrast

Sú öra tölvu- og tæknivæðing sem orðið hefur í hinum vestræna heimi verður til þess að tilteknir hópar fólks einangrast. Það eru þeir sem ekki hafa fulla burði til að taka þátt í og notfæra sér tæknina. Það á sér stað hér á landi eins og annars staðar, segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Tryggingastofnunar. "Þessi tækni hefur gert það að verkum að þeir sem ekki hafa tök á að nýta sér hana, til að mynda vegna aldurs, njóta ekki sömu þjónustu og hinir. Þeir geta til dæmis ekki nýtt sér hin ýmsu tilboð sem eru einungis á heimasíðum fyrirtækjanna. Þetta er ekki hávær hópur og á sér ekki marga talsmenn," sagði Sigríður Lillý. "Þeir sem ekki eru virkir á netinu eru heldur ekki virkir í samfélagsumræðunni. Þetta er að verða mjög einangraður hópur í samfélaginu." Sigríður Lillý sagði að ekki hefði verið gerð rannsókn á stöðu þessa fólks hér, en taldi óhætt að yfirfæra niðurstöður erlendra rannsókna yfir á íslenskt samfélag. Hún kvað allflesta geta bent á einstaklinga sem ekki hefðu aðgang að tölvum og tilheyrandi möguleikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×