Erlent

Ráðist gegn uppreisnarmönnum

Fjölmennar og velvopnaðar bandarískar og íraskar hersveitir börðust við uppreisnarmenn í borginni Samarra og felldu að minnsta kosti hundrað uppreisnarmenn sagði Qasin Dowoud, öryggismálaráðherra í írösku bráðabirgðastjórninni. Að sögn Dowoud voru íraskar hersveitir og sveitir þjóðvarðliða sendar inn í miðborg Samarra ásamt 3.000 manna bandarísku herliði til að ná borginni allri á sitt vald, alls er þetta um 5.000 manna herlið. Fyrsta markmið herfararinnar var að setja upp vörð í kringum stjórnarbyggingar og lögreglustöðvar. Uppreisnarmenn, sem eru öflugir í borginni, svöruðu framsókn hermanna með því að skjóta að þeim úr léttum sprengjuvörpum og hríðskotarifflum. Að sögn íraskra og bandarískra yfirvalda fór lítið fyrir baráttu uppreisnarmanna eftir tólf tíma bardaga. Þá voru þeir sagðir hafa einangrast á ákveðnum svæðum í borginni. "Við vinnum að því að hreinsa borgina af hryðjuverkamönnum," sagði Dowoud sem lýsti Samarra sem útlagaborg sem hefði verið orðin stjórnlaus. Hann sagði 37 uppreisnarmenn hafa verið handtekna og að sumir þeirra hefðu áður barist fyrir stjórn Saddams Husseins. Læknir á sjúkrahúsinu í Samarra sagði að í það minnsta áttatíu lík og yfir hundrað særðir einstaklingar hefðu verið fluttir á sjúkrahúsið. Hann gat hins vegar ekki sagt til um hversu margir þeirra væru uppreisnarmenn. Al-Jazeera sjónvarpsstöðin útvarpaði í gær upptöku sem er sögð eftir Ayman al-Zawahri, helsta samstarfsmann Osama bin Ladens, eru íslömsk ungmenni hvött til að berjast gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra. "Þið, æska Íslams, þetta eru skilaboð til ykkar. Ef við deyjum eða erum hnepptir í fangelsi skuluð þið feta í okkar fótspor. Ekki bregðast guði og spámanni hans, ekki bregðast traustinu sem ykkur hefur verið sýnt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×