Menning

Túnfiskur spari og hversdags

Túnfiskur hefur ekki verið algengur réttur á borðum Íslendinga hingað til nema maukaður í majónessalötum. Túnfiskur er hins vegar annað og meira og auðvelt að búa til úr honum alls kyns eðalrétti. Lárusi Gunnari Jónassyni, matreiðslumnni í Sjávarkjallaranum, finnst allt of lítið um að fólk eldi túnfisk heima hjá sér en Sjávarkjallarinn hefur verið með túnfisk á matseðlinum frá upphafi og hann hefur notið mikilla vinsælda. "Nú er hægt að fá túnfiskinn frosinn í flestum verslunum í 180-200 gramma pakkningum," segir Lárus. "Það er alls ekkert erfitt að matreiða fiskinn, aðalatriði er að meðhöndla hann rétt, passa að elda hann sama dag og hann er þíddur, steikja lítið og krydda mikið. Mér finnst til dæmis gott að nota kóríander og ávextir passa mjög vel með til að gefa honum suðrænan blæ." Lárus segir af og frá að sjóða túnfiskinn, heldur beri að steikja hann eða grilla. "Hann er líka ofboðslega ljúffengur hrár, og hentar sérlega vel í sushi og sashimi. Ég nota hann mikið þegar ég held matarboð heima og þá ýmist sem forrétt eða aðalrétt. En hann er líka alveg tilvalinn hversdags." Lárus gefur sér tíma til að elda fyrir okkur túnfisk og uppskriftin fylgir hér á eftir. Annars er Lárus, sem ber titilinn matreiðslumaður ársins, á leið til Þýskalands á Ólympíuleika matreiðslumeistara með íslenska landsliðinu. "Við förum eftir mánuð og erum á fullu að undirbúa okkur. Við verðum að sjálfsögðu landi og þjóð til sóma og stefnum á að toppa níunda sætið sem vð hlutum síðast," segir Lárus.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.