Menning

Matur sem börnin borða

"Margir kannast við það að börnin þeirra borði lítið sem ekkert heima hjá sér en séu miklir mathákar í leikskólanum. Út frá þessu algenga vandamáli kviknaði hugmyndin," segir Ásta Vigdís Jónsdóttir, ritstjóri bókarinnar Krakkaeldhús sem nýverið kom út hjá útgáfunni Hemru. Í bókinni eru tíndar til uppskriftir frá leikskólum landsins, sem hafa verið vinsælar hjá börnunum, og framsettar á einfaldan og skemmtilegan máta. Áherslan er lögð á hollt og fjölbreytt fæði sem börnum líkar og geta vel gengið sem máltíð fyrir alla fjölskylduna. "Ég prófaði mikið af þessum uppskriftum á mínu heimili og hafa þær allar slegið í gegn hjá börnunum og þá sérstaklega plokkfiskurinn," segir Ásta Vigdís. Hráefnið í allar uppskriftirnar er mjög aðgengilegt og í flestum tilfellum ódýrt, sem skiptir miklu máli fyrir barnafjölskyldur. "Grænmetið sem sjaldan er vinsælt er fléttað á skemmtilegan hátt inn í uppskriftirnar og á þann veg að börnin borði það með bestu lyst," segir Ásta Vigdís og tekur það fram að ekki eigi að ganga að því vísu að börnin borði ekki tiltekinn mat. Vandað var við allan frágang á bókinni að sögn Ástu og var það haft að leiðarljósi að bókin væri litrík og höfðaði til barna. "Börnin geta sjálf valið sér mat úr bókinni og taka þannig þátt á heimilinu. Við viljum með þessari bók stuðla að jákvæðri og skemmtilegri stund fjölskyldunnar við matarborðið," segir Ásta Vigdís.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.