Menning

Gerið boð á undan ykkur!

Skúli Gautason, leikari, tónlistarmaður, útvarpsmaður og Snigill nr. 6., kom stúlku einu sinni verulega á óvart: "Ég var á Interrail-ferðalagi og fékk þá skyndihugdettu að heimsækja stelpu sem ég þekkti í Ljubljana sem er í Slóveníu en var þá partur af Júgóslavíu. Þetta var talsvert ferðalag þar sem ég lenti meðal annars í gríðarlegu partíi á brautarstöðinni í Trieste sem endaði með því að óeirðalögreglan birtist skyndilega með táragas og grá fyrir járnum. Ég flýði inn á brautarstöðina og skutlaði mér, a la James Bond, inn í lest sem var að renna frá brautarpallinum. Það reyndist hins vegar vera nokkurt antiklímax að lestin var afskaplega hægfara sveitalest sem lullaði áfram og óeirðalögreglan hefði náð mér á fæti ef hún hefði viljað. Ég náði til Ljubljana á endanum og fann húsið þar sem Nena vinkona mín bjó. Þar var enginn heima. Ég settist á tröppurnar og hugsaði með mér: "Hér sit ég og get ekki annað, guð hjálpi mér, amen," og sem ég sagði amen kom þarna að kona.

Ég sagði henni deili á mér og hún sagði mér að Nena og fjölskyldan væru í sumarfríi við ströndina. Konan kom þarna tvisvar í viku að vökva blómin svo ég var mjög heppinn að hitta á hana. Hún lýsti fyrir mér hvar þau væru en til þess að komast þangað þurfti ég fyrst að taka einhverja afdankaða sveitalest og svo rútu, fara úr henni á vissum stað, ganga þá eftir nákvæmum fyrirmælum í átt að ströndinni og þá tjölduðu þau alltaf þar á sama stað. Ég fylgdi þessum fyrirmælum og ég held að ferðalagið hafi tekið 2 daga. Þegar ég kom niður að ströndinni þá hengu einhver handklæði eða lök á milli tveggja greina. Ég lyfti þeim frá og þá stendur Nena þarna bara beint fyrir framan mig. Ég horfði á hana skælbrosandi og hún á mig á móti og svo gjörsamlega sturlaðist hún af skelfingu. Hún átti svo alls ekki von á mér að hún var handviss um að ég væri dauður og væri kominn að vitja hennar. Nena var miður sín í nokkra daga á eftir og ég held að hún hafi aldrei fyrirgefið mér þetta."

Og hefur sagan einhvern boðskap? "Boðskapur sögunnar er sá að maður á að gera boð á undan sér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.