Menning

Vincent Plédel fékk ferðabakteríu

Árið 1976 kom fjórtán ára spænskur strákur í heimsókn til frænku sinnar sem átti heima á Íslandi. Þessi heimsókn hafði djúpstæð áhrif á líf hans og í dag er hann sannkallaður heimshornaflakkari sem vinnur við að ferðast um heiminn og kanna skemmtilega ferðamöguleika fyrir ferðaskrifstofur auk þess sem hann skrifar ferðabækur og greinar í ferðatímarit. Vincent Plédel hefur ekki haft mikinn tíma fyrir sumarfrí undanfarin ár þar sem hann hefur nýlokið fjögurra ára heimsreisu þar sem hann og kona hans Marian Ocana söfnuðu menningarefni fyrir menntamálayfirvöld í Ceuta í Marokkó.

"Ég vildi endilega koma aftur til Íslands í sumarfríinu, því fyrsta í fjögur ár, bæði vegna þess að ég náði ekki að koma hingað þegar við komum frá Ameríku í fyrra og eins vegna þess að Marian hefur aldrei séð Ísland og mér fannst endilega að hún þyrfti að sjá hvernig þetta byrjaði allt hjá mér," segir Vincent brosandi. "Hér fékk ég ferðabakteríuna þegar ég fór með frænku minni í fjögurra vikna ferð um allt landið. Ég hafði aldrei kynnst neinu landi á þennan hátt. Þarna kom ég í fyrsta sinn í fjórhjóladrifinn jeppa en ég hef mikið dálæti á þeim ferðamáta og fer flestar mínar ferðir á slíku farartæki. Eftir þetta fór ég í ferðalag hvenær sem ég gat, fyrst á mínum eigin vegum, á Interrail eða hreinlega bara á puttanum en svo kom að því að ferðirnar tóku of mikinn tíma frá vinnunni. Þá stofnuðum við Marian fyrirtæki sem sameinar vinnu okkar og ástríðu og gerir okkur kleift að halda áfram að ferðast."

Hver skyldi vera eftirminnilegasti staðurinn sem þau hjónin hafa heimsótt? "Ég væri til í að búa í miðri Ástralíu. Þar búa fáir og er mjög friðsælt, landið er gríðarstórt og fjölbreytt og óbyggðirnar magnaðar. Svo er hægt að velja sér veðurfar og setjast bara upp í bílinn og keyra þangað til maður finnur veður sem manni líkar við." "Öfugt við Ísland þar sem veðrið velur mann," bætir Marian við en henni fannst dálítið kalt í upphafi heimsóknarinnar til Íslands enda er hún alin upp í Marokkó.

En ætla þau að skrifa eitthvað um Ísland? "Við tókum margar myndir og langar til að kynna þetta ævintýraland fyrir Spánverjum. Nú er orðið mun auðveldara fyrir þá að komast til Íslands þar sem hægt er að fljúga beint frá bæði Madríd og Barcelona." Vincent og Marian dvelja á Íslandi í þrjár vikur í þetta sinn og hafa náð að ferðast vítt og breitt svo þau hafa ýmislegt skemmtilegt að segja ferðaþyrstum Spánverjum. Þeim sem vilja vita meira um ferðir þeirra er bent á heimasíðuna www.ruta-imperios.com þar sem lesa má um heimsreisuna á ensku og spænsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.