Innlent

250 höfðu kosið á hádegi

Frá Kópavogi.
Frá Kópavogi. MYND/Stefán

250 höfðu tekið þátt í prófkjöri Framsóknarflokksins í Kópavogi á hádegi. Fjórtán eru í framboði, þar af fimm sem stefna á fyrsta sæti á lista flokksins fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar.

Framsóknarmenn hafa nú í fyrsta sinn opið prófkjör til að velja frambjóðendur sínar til bæjarstjórnarkosninga í Kópavogi. Þess vegna er engin leið að spá fyrir um hversu mikil kjörsóknin verður þegar upp er staðið, segir Haukur Ingibergsson, formaður kjörstjórnar. Fimm sækjast eftir fyrsta sætinu. Það eru þau Jóhannes Valdemarsson, Linda Bentsdóttir, Ómar Stefánsson Samúel Örn Erlingsson og Una María Óskarsdóttir . Að auki gefa þrír kost á sér í fyrsta til þriðja eða fyrsta til fjórða sæti en það eru Dollý Nielsen, Gestur Valgarðsson og Hjalti Björnsson.

Baráttan þykir galopin og erfitt að segja til um hvernig fer. Sigurður Geirdal bæjarstjóri leiddi lista flokksins fyrir fjórum árum en hann féll frá á síðasta ári. Framsóknarflokkurinn fékk þrjá bæjarfulltrúa síðast og gefur einn þeirra, Ómar Stefánsson, kost á sér nú.

Allir Kópavogsbúar sem verða orðnir átján ára þegar bæjarstjórnarkosningar fara fram næsta vor geta kosið í prófkjörinu. Kosið er í Smáraskóla og er kjörstaður opinn til klukkan átta í kvöld. Búist er við að fyrstu tölur liggi fyrir um klukkan hálfníu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×