Innlent

Sendi út viðkvæmar upplýsingar

Starfsmanni á skrifstofu Samfylkingarinnar var sagt upp störfum fyrir að hafa brotið trúnað varðandi viðkvæmar upplýsingar um flokksskrá Samfylkingarinnar. Starfsmaðurinn sendi hluta af flokksskránum á rafrænu formi á eigið tölvupóstfang utan flokksskrifstofunnar en það samræmdist ekki vinnureglum sem starfsmanninum var skylt að fara eftir. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var talið að starfsmaðurinn hefði afhent stuðningsmönnum Össurar Skarphéðinssonar í formannskjörinu gögnin en ekki tókst að sýna fram á það með óvéfengjanlegum hætti. Starfsmaðurinn hefur leitað lögfræðiaðstoðar þar sem hann telur að á sér hafi verið brotið með því að fara í gegnum tölvupóstsendingar sínar. Það stríði gegn lögum um persónuvernd. Stefán Jón Hafstein, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, staðfesti að starfsmaðurinn hefði verið látinn fara. "Ég sé engum tilgangi þjóna að skýra frá því hvers vegna starfsmaðurinn er ekki lengur við störf hjá Samfylkingunni. Hins vegar er alveg ljóst að ekkert hefur gerst sem hefur haft áhrif á kosninguna eða gert hana tortryggilega," segir Stefán Jón.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×