Innlent

Unnur Birna var kjörin ungfrú heimur

Fegurst allra. Það var mikið um dýrðir þegar úrslitin voru kynnt í gær. Unnur Birna bar sigur úr býtum og hlaut titilinn Ungfrú heimur.
Fegurst allra. Það var mikið um dýrðir þegar úrslitin voru kynnt í gær. Unnur Birna bar sigur úr býtum og hlaut titilinn Ungfrú heimur.

Fegurðardrottning Íslands, Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, var í gær krýnd ungfrú heimur. Keppnin fór fram í borginni Sanya í Kína og um hundrað keppendur frá ýmsum löndum tóku þátt. Í öðru sæti varð ungfrú Mexíkó en stúlkan frá Púertó Ríkó varð í því þriðja.

Unni Birnu hafði verið spáð góðu gengi í keppninni en hún átti þó alls ekki von á að vinna. "Ég fór bara út með því hugarfari að gera mitt besta og tók þann pól í hæðina að halda mig á jörðinni í sambandi við allar væntingar," sagði fegurðardrottningin nýkrýnda í samtali við NFS í gær. Unnur hefur dvalið í Kína í um fimm vikur við undirbúning keppninnar og ekkert lát er á ferðalögunum. Framundan er viðburðaríkt ár í hlutverki ungfrúar heims og margvísleg verkefni bíða fegurðardrottningarinnar.

Mikill fjöldi fólks fylgdist með keppninni sem var sjónvarpað víða um heim. Íslenskir áhorfendur tóku andköf þegar úrslitin voru tilkynnt enda ekki á hverjum degi sem Íslendingar eignast alheimsfegurðardrottningu. Það hefur þó gerst þrisvar sinnum áður: árið 1963, 1985 og 1988. Unnur Birna er 21 árs og nemur lögfræði við Háskólann í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×