Sport

Jón Arnór tilnefndur í stjörnulið

Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður hjá rússneska úrvalsdeildarliðinu Dynamo St. Petersburg, hefur verið tilnefndur í bakvarðarstöðu Evrópuúrvalsins sem mætir úrvali erlendra leikmanna í Stjörnuleik sem fram fer í Limassol á Kýpur þann 14. apríl næstkomandi. 10 leikmenn verða valdir af þjálfurum liðanna en einnig er boðið upp á netkosningu. Hægt er að taka þátt í valinu á heimasíðu evrópska körfuknattleikssambandsins, fibaeurope.com, og leggja Jóni lið. Tveir leikmenn verða valdir að auki sem verða liðinu til fulltingis. Þetta er mikill heiður fyrir Jón sem körfuknattleiksmann og sýnir að hann er mikils metinn í körfuboltaheiminum. Nú þegar hafa fyrrum samherjar Jóns hjá KR tekið sig saman og standa fyrir atkvæðasöfnun í þeirri von að Jón komist til Kýpur. Jón hefur staðið sig vel með Dynamo St. Petersburg það sem af er og er liðið taplaust í Evrópukeppninni, hefur unnið alla 14 leiki sína. Dynamo lék síðast við gríska liðið Iraklis á útivelli í fyrrakvöld. Gríska liðið byrjaði leikinn betur og leiddi 24-19 eftir fyrsta fjórðung. Dynamo-liðið sótti í sig veðrið og munaði aðeins einu stigi í hálfleik, 51-50. Dynamo þétti vörnina í seinni hálfleik og hélt heimamönnum í 31 stigi. Jón skoraði 9 stig, tók 2 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og stal einum bolta í leiknum. Hægt er að nálgast slóðina netkosningu Stjörnuleiksins á kki.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×