Viðskipti innlent

Leggja 6 milljarða í danskt félag

Baugur hefur keypt 30 prósenta hlut í danska fasteignafélaginu Keops fyrir um sex milljarða íslenskra króna. Starfsemi Keops felst meðal annars í því að kaupa og endurnýja atvinnu- og íbúðarhúsnæði, bæði til útleigu og sölu. Einnig er starfrækt innan félagsins nokkurs konar eignarhaldsfélag sem heldur utan um fjárfestingar í fasteignum. Húsnæði félagsins er aðallega í Kaupmannahöfn og víðar í Danmörku en einnig í Svíþjóð og á Spáni. Félagið hefur verið skráð í kauphöllina í Danmörku frá árinu 1998. Gengi félagsins hefur hækkað mikið að undanförnu og er það hástökkvari ársins í dönsku kauphöllinni. Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri Nordic fjárfestinga, félagsins sem sér um fjárfestingar Baugs á Norðurlöndum, segir félagið ætla að koma að stjórnun Keops. Ráðgert er að halda hluthafafund í ágúst þar sem fulltrúar Baugs taki sæti í stjórn Keops. Heildareignir félagsins nema nú tæpum áttatíu milljörðum íslenskra króna en eignir þess hafa stóraukist að undanförnu með kaupum á ýmsum fasteignum. Tekjur félagsins á síðasta ári námu í kringum átta milljörðum króna og hagnaður félagsins var tæpar 800 milljónir króna. Baugur keypti 30 prósenta hlut sinn af stofnanda og forstjóra félagsins en hann átti hátt í 70 prósenta hlut í félaginu. Baugur verður því næststærsti eigandi félagsins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Baugur fjárfestir í verslunarhúsnæði en fyrir á félagið umtalsverðan hlut í fasteignafélaginu Stoðum og félagið seldi nýlega 10 prósenta hlut sinn í breska fasteignafélaginu LxB. Baugur á fyrir hlut í fasteignafélagi sem stofnað var í kringum húsnæði Magasin du Nord við Kóngsins Nýjatorg. Skarphéðinn Berg segir Baug vera að skoða frekari fjárfestingar í Danmörku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×