Innlent

Hugsanlegt að áminna forstöðumenn

Fjármálaráðherra segir að til greina komi að áminna forstöðumenn stofnana, sem fara fram úr á fjárlögum, en ekki að frysta launagreiðslur til þeirra, eins og lagt er til í skýrslu Ríkisendurskoðanda. Ríkisendurskoðandi segir alvarlega misbresti á framkvæmd fjárlaga og mörg dæmi um að ríkisstofnanir fari fram úr fjárheimildum ár eftir ár en engin dæmi séu um að ráðuneyti áminni forstöðumenn eins og lög geri ráð fyrir. Geir H. Haarde fjármálaráðherra fagnar úttekt Ríkisendurskoðanda og telur koma til greina að veita forstöðumönnum áminningu fari þeir ekki eftir reglum. Gert sé ráð fyrir áminningum í lögum ef sakir séu alvarlegar og hugsanlega brottvikningu ef mál reynist enn alvarlegra. Aðspurður hvort um slíkt sé að ræða núna segir Geir að hann skuli ekki segja um það. Ekki sé farið ofan í einstakar stofnanir í skýrslu Ríkisendurskoðanda en ef Ríkisendurskoðun viti um einhverjar slíkar ávirðingar eigi hún að benda á það. Spurður hvort til greina komi að frysta greiðslur til stofnana sem ekki halda sig innan rammans, eins og lagt er til í skýrslu Ríkisendurskoðanda, segir Geir að það sé ekki raunhæft. Það gildi sérstök lög og kjarasamningar um t.d. launagreiðslur og ríkið hafi reynt að standa við samninga gagnvart starfsmönnum ríkisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×