Innlent

Skuldir borgarsjóðs lækka sem og þjónustugjöld

MYND/Pjetur

Hreinar skuldir borgarsjóðs Reykjavíkur munu lækka um 1,1 milljarð króna og heildarskuldir borgarsjóðs um 8,2 milljarða á næsta ári, samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2006 sem Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri mælir fyrir á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur á morgun.

Afgangur af rekstri verður 1,4 milljarðar króna og áfram er gert ráð fyrir því að þjónustugjöld verði lægst í Reykjavík miðað við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Í forsendum áætlunarinnar er gert ráð fyrir að borgarsjóður njóti ekki aukinna tekna af fasteignaskatti í samræmi við væntanlega hækkun fasteignamats, heldur verði álagningarprósentan lækkuð. Þá er lagt til að hagræðing af því að sameina rekstur Fráveitunnar og Orkuveitu Reykjavíkur skili sér til borgarbúa með því að lækka álagningarhlutfall holræsagjalds.

Þrátt fyrir þessar lækkanir er gert ráð fyrir að hreinar skuldir borgarsjóðs lækki um fimmtung og heildarskuldir borgarsjóðs lækki hinsvegar um 8.200 mkr. að raungildi og skýrist sú lækkun að mestu leyti af sameiningu Fráveitu og Orkuveitu Reykjavíkur. Frumvarpið verður tekið til umræðu á morgun og síðan til annarar umræðu þann sextánda desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×