Viðskipti innlent

Mesta hækkun frá áramótum

Gengi hlutabréfa í Bakkavör Group hafa enn hækkað eftir síðustu kaup félagsins á bresku matvælafyrirtæki og hefur Bakkavör nú slegið Landsbankanum við hvað varðar mestu hækkun í Kauphöllinni frá áramótum.  Landsbankinn átti lengi vel örugga forystu, hafði nú í morgun hækkað um rúm 79 prósent í verði frá áramótum, en í morgun komst Bakkavör upp í sömu tölu og skara fyrirtækin langt fram úr öðrum fyrirtækjum á þessum vettvangi. Í þriðja sæti eru Og Fjarskipti, sem hafa hækkað um 44 próent, FL Group um 43 prósent eftir fimm prósenta lækkun í gær, og Straumur-fjárfestingarbanki er í fjórða sæti, hefur hækkað um 36 prósent frá árámótum. Hækkun á Bakkavör og Landsbankanum er svimandi há á mælikvarða vestrænna kauphalla. Ef litið er hinum megin við strikið þá hefur Flaga Group lækkað mest, eða um 38 prósent, en fyritækið boðaði í gær mikla endurskipulagningu sem kann að hafa áhrif á gengi þess á næstunni. Næstmest hefur Fiskeldi Eyjafjarðar lækkað frá áramótum, eða um fjórðung, og SÍF um níu prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×