Viðskipti innlent

Eigið fé verður 100 milljarðar

Að lokinni sameiningu Burðaráss við Landsbankann annars vegar og Straum Fjárfestingarbanka hins vegar verður eigið fé Landsbankans tæplega 100 milljarðar króna og eigið fé fjárfestingabankans sem hljóta mun nafnið Straumur – Burðarás Fjárfestingabanki hf. verður rúmlega 100 milljarðar króna. Áður en til þessara sameininga kemur eykur Burðarás hlutafé félagsins um 10 milljarða króna í tengslum við kaup á tilteknum eignum Fjárfestingafélagsins Grettis hf. Samruninn er einn af stærstu samrunum sinnar tegundar á Íslandi sé horft til hluthafafjölda, fjárhagslegs styrks og eiginfjárstyrks félaganna og er þetta í fyrsta sinn sem skráð félag í Kauphöll Íslands sameinast tveimur félögum. Allt í allt eru þetta einhverjar mestu hræringar á íslenska fjármálamarkaðnum til þessa og teljast bæði félögin risar á íslenska vísu. Núverandi bankastjóri Landsbankans mun sýlsa með þá hluti sem bankinn fær frá Burðarási, en Þórður Már Jóhannesson verður forstjóri Straums-Burðaráss, fjárfestingabanka. Þórður Már segir að sameiningin hafi þá þýðingu að eigin fjár styrkur Straums eykst úr því að vera 46 milljarðar upp í hundrað milljarða í eign fé. Hann segir engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi eignarhlut þeirra í Íslandsbanka, hvorki vaðrandi kaup né sölu. Þó sé ljóst að þeir þurfi að sækja um að eiga yfir 20% hlut í bankanum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×