Innlent

Dularfull námsstefna

Grunur leikur á að enn einn svindlpósturinn sé í umferð hér á landi. Fjöldi fólks hefur undanfarna daga fengið boð um að sækja ókeypis námsstefnu á Grand Hótel í nóvember, en hótelstjórinn segir hana hins vegar ekki á dagskrá. Lögreglan telur að taka beri boðinu með fyrirvara.

Á umslaginu, sem fólk hefur fengið sent til sín, með boði um að sækja ókeypis námstefnu í netsölutækni, 21. nóvember næstkomandi, kemur hvergi fram hver sendann er, einungis fylgir óljóst heimilisfang í Seattle í Bandaríkjunum. Í sumum umslaganna koma fram takmarkaðar upplýsingar um námsstefnuna á íslensku, en í flestum þeirra er allt á ensku.

Framan á umslögunum segir að námsstefnan verði haldin á Nordica hótelinu, en á sjálfum boðsmiðanum segir hins vegar að hún fari fram á Grand hótelinu í Reykjavík. Gefin eru upp tvö gjaldfrjáls símanúmer, sem viðkomandi þarf að hringja í til að staðfesta þátttöku, en til að tryggja sér sæti þarf að greiða tólf hundruð krónur fyrirfram, sem fást síðan endurgreiddar á sjálfri námsstefnunni. Hótelin, sem fengu óljósa fyrirspurn um lausan sal í nóvember, hafa gert lögregunni viðvart um málið, en fulltrúar hjá rannsóknardeild lögreglunnar telja ástæðu til að taka boðinu um námsstefnuna með fyrirvara.

Ólafur Torfason, hótelstjóri á Grand Hótel, segir að símtölum hafi bókstaflega rignt inn til hótelsins þar sem fólk er að spyrjast fyrir um námsstefnuna. Ólafur segir ljóst að ekki hafi verið leigður út salur á hótelinu til námskeiðshaldsins; óljós fyrirspurn hafi komið um sal á hótelinu en hún hafi aldrei verið staðfest.

>




Fleiri fréttir

Sjá meira


×