Innlent

Sakarefni hafa fyrnst

MYND/Róbert
Hluti sakarefna í málum Lífeyrissjóðs Austurlands hefur fyrnst í meðförum efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra á síðustu mánuðum, samkvæmt svörum embættisins til fjögurra sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði Austurlands sem kærðu fyrrverandi stjórn, framkvæmdastjóra og endurskoðanda sjóðsins fyrir ólöglega meðferð á fjármunum sjóðsins. Sjö manns voru kærð vegna verka stjórnar og stjórnenda sjóðsins á árunum 1991-2000 og var málinu vísað til Ríkislögreglustjóra snemma árs 2003. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa tafir á rannsókninni leitt til þess að meintar sakargiftir á hendur stjórn sjóðsins fyrir að sinna ekki eftirlitsskyldu séu nú fyrndar. Framkvæmdastjóri og endurskoðandi hans, sem enn hafa réttarstöðu grunaðra í málinu, hafa samkvæmt heimildum fréttastofu enn ekki verið kallaðir til yfirheyrslu vegna málsins. Heimildir herma ennfremur að nú hyggist kærendur afla frekari gagna um meðferð fjármuna sjóðsins og koma til efnahagsbrotadeildar, en það mun vera í þriðja sinn sem kærendurnir sjálfir senda gögn til embættisins í þeirri von að málið komist á rekspöl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×