Innlent

Kanna arðsemi og umhverfisáhrif

"Áður en hægt er að taka afstöðu til álvers í Helguvík þarf fyrst að kanna arðsemi jafnt álversins og þeirra jarðvarmavirkjana sem því tengjast. Jafnframt finnst mér ljóst að fara þarf yfir umhverfisþætti málsins," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um fyrirhugað álver í Helguvík og aðkomu Orkuveitu Reykjavíkur að orkusölu til þess. Ingibjörg telur ljóst að mikill kaupendamarkaður sé á raforku um þessar mundir. "Orkuveitan ætti að hugsa sig vel um þar sem ýmsir kostir eru í boði og margir virðast hafa áhuga. Þeir sem eru á orkuveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur ættu að njóta góðs af því," segir Ingibjörg Sólrún. Hún segir einnig að varhugavert geti verið að einblína of mikið á stóriðju í atvinnuuppbyggingu. Hún megi ekki yfirskyggja allar aðrar atvinnugreinar. Af fréttum síðustu daga má ljóst vera að flokkarnir, sem standa að Reykjavíkurlistanum, hafa mismunandi sýn á álversuppbyggingu, svo sem í Helguvík. Framsókn er henni hlynnt, Vinstri-grænir andvígir en Samfylkingin vill fara sér hægt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×