Sport

Sérfræðingar óttast enskar bullur

NordicPhotos/GettyImages
Hollenskur sérfræðingur sem hefur að atvinnu að rannsaka fótboltabullur, segir að þrátt fyrir þokkalega hegðun stuðningsmanna enska landsliðsins í knattspyrnu á síðustu tveimur stórmótum, stafi enn hætta af enskum fótboltabullum og bendir á að þær verði undir smásjánni á HM í Þýskalandi næsta sumar. "Ég held að stuðningsmenn Englands, Þýskalands og nokkurra Austur-Evrópuþjóða gætu orðið erfiðir viðfangs á HM og menn munu fylgjast vel með þeim næsta sumar," sagði Henk Groenvelt. Búist er við að keppnin í Þýskalandi muni bjóða upp á meiri hættu á ólátum vegna þess að landið hefur mörg landamæri og stendur í hjarta Evrópu, sem gerir fólki mun auðveldara að komast á leiki í keppninni. Groenvelt hefur fylgst nokkuð vel með enskum stuðningsmönnum undanfarið og bar þeim ekki góða sögu frá leiknum við Wales í undankeppni HM fyrir nokkru. "Margir af stuðningsmönnum enska liðsins hegðuðu sér mjög illa. Þeir voru ölvaðir og berir að ofan og ögruðu fólki mikið, ekki bara yngra fólkið, þeir eldri líka. Ensku stuðningsmennirnir skáru sig úr fjöldanum og voru talandi um stríðið, sem er ekki það afslappaða og vinalega andrúmsloft sem menn vilja sjá í kring um knattspyrnuleiki," sagði Hollendingurinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×