Viðskipti innlent

Öfugum megin fram úr

Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, gefur lítið fyrir gagnrýni Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra og segir hana hafa farið öfugum megin fram úr rúminu í morgun. Hann bendir á að Landsbankinn sé hlutafélag og njóti mikils trausts meðal viðskiptamanna sinna. Öðru máli kunni hins vegar að gegna um Framsóknarflokkinn og kjósendur hans. Björgólfur segist ekki kannast við að hann „gíni yfir öllu kviku“ eins og ráðherrann talaði um í Ríkisútvarpinu í morgun. „Ef hún á við þessi seinustu tíðindi um Íslandsbanka þá er það nú Burðarás sem keypti. Eimskip er farið yfir í hendur annarra manna svo ekki erum við að gína yfir því þannig að ég skil ekki alveg hvað hún er að fara,“ segir Björgólfur. Björgólfur segist ekki nenna að svara Valgerði. „Hún, eða Framsóknarflokkurinnm, á í einhverjum erfiðleikum innbyrðis og þeir verða bara að leysa sín mál sjálfir án þess að vera að draga aðra inn í,“ segir Björgólfur. Hann segir þetta ekki spurningu um valdahlutföll eða yfirburði heldur um að ávaxta sína peninga. Menn komi inn í félög og fari út úr félögum en fari eftir ákveðnum reglum í þessu litla þjóðfélagi. „Það er enginn að tala um að menn ætli að vera til eilífðar í neinu,“ segir Björgólfur.  





Fleiri fréttir

Sjá meira


×