Erlent

Reykur upp úr strompinum

Þær fréttir voru að berast frá Róm að svartur reykur hefði stigið upp um strompinn á Sixtínsku kapellunni. Það þýðir að þegar hefur verið gengið til einnar atkvæðagreiðslu um nýjan páfa en enginn hefur fengið tilskilinn meirihluta.

Kardínálar kaþólsku kirkjunnar læstu sig inni í Sixtínsku kapellunni síðdegis og koma ekki þaðan út fyrr en þeir hafa kosið nýjan páfa. Það getur gerst hvenær sem er.

Þegar kardínálarnir voru komnir inn í kapelluna hrópaði Piero Marini erkibiskup, „Extra Omnes“, sem þýðir að allir aðrir en kardínálarnir áttu að fara út. Síðan var voldugum eikardyrunum lokað.

Um stromp kapellunnar, sem er líklega  frægasti strompur í heimi, berast skilaboð um gang páfakjörsins. Kardínálarnir greiða atkvæði aftur og aftur þar til nýr páfi hefur verið kjörinn. Eftir hverja kosningu eru atkvæðaseðlarnir brenndir. Ef reykurinn er svartur hefur ekki náðst samstaða; ef hann er hvítur hefur páfi verið kjörinn.

Í fyrstu sjötíu og tveim atkvæðagreiðslunum þarf nýr páfi að fá tvo þriðju atkvæða. Eftir það dugar einfaldur meirihluti. Lengst hefur það tekið þrjú ár að kjósa nýjan páfa en í þeim átta páfakjörum sem voru á tuttugustu öldinni tók ekkert lengur en fimm daga.

Flestir sérfræðingar í málefnum páfagarðs búast ekki við að þetta kjör taki langan tíma. Þeir eiga von á því að hvítur reykur standi upp úr strompinum á miðvikudags- eða fimmtudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×