Innlent

Veiðar í atvinnuskyni ekki leyfðar

MYND/AP
Ekki verður hreyft við hvalveiðibanninu á fundi Alþjóða hvalveiðráðsins sem fram fer í Ulsan í Suður-Kóreu. Ráðið felldi tillögu Japana um að takmarkaðar veiðar í atvinnuskyni yrðu leyfðar, eftir nær tveggja áratuga bann. 23 þjóðir greiddu atkvæði með tillögu Japana en 29 þjóðir voru henni andvígar. Japanar sem líkt og Íslendingar stunda hvalveiðar í vísindaskyni héldu því fram að meðfram veiðum í atvinnuskyni mætti hæglega gera rannsóknir á hvölum og fylgjast með atferli þeirra. Andstæðingar sögðu tillöguna gloppótta og með því að samþykkja hana myndu hvalveiðar aukast um allan heim. Það blæs ekki byrlega fyrir Japönum á fundinum. Í gær var tillaga þeirra um leynilegar atkvæðagreiðslur innan ráðsins einnig felld og fyrirætlanir þeirra um að meira en tvöfalda fjölda þeirra dýra sem veidd eru í vísindaskyni hefur mætt mikilli andstöðu. Ástralir og Nýsjálendingar hafa svo lagt fram ályktun um að Japanar hætti við þessi áform og vitað er að margar þjóðir í hvalveiðiráðinu munu styðja þá ályktun. Ástralir benda á að meirihluti hvala sem Japanar veiði endi í fiskbúðum eða á veitingastöðum og það sé einungis fyrirsláttur að veiða eigi hvalinn í vísindaskyni. En þó að ályktunin fengist samþykkt gætu Japanar hins vegar hæglega hunsað hana enda er það ekki í höndum ráðsins að ákveða hvalveiðar einstakra þjóða í vísindaskyni. Ljóst er að slegið hefur verið á þær væntingar hvalveiðisinna að gagngerar breytingar yrðu gerðar á fundinum í Ulsan og segir Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, að þeir nýti tímann til að ná breiðri samstöðu fyrir næsta fund Hvalveiðiráðsins sem haldinn verður að ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×