Innlent

Stóðu í innbrotum og smáþjófnaði

Átján ára piltur var nýlega dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa verið í hlutverki bílstjóra í innbrotaleiðangri þriggja annarra í Reykjavík í mars á þessu ári. Þá var hann dæmdur fyrir lítilræði af hassi sem fannst í bíl hans nokkrum dögum síðar. Með honum var dæmdur félagi hans sem varð átján ára í lok mánaðarins, en sá var með í innbrotaferðinni og í að stela bensíni fyrir 1.553 krónur á bensínstöð, auk þess að stela sjálfur ýmsu smálegu í búningsaðstöðu sjúkraþjálfunar í Reykjavík. Dómur þess fyrri var skilorðsbundinn í þrjú ár, en hann fékk árið 2003 skilorðsbundinn dóm í tvö ár fyrir þjófnað. Hinum, sem er nokkrum mánuðum yngri, var ekki gerð sérstök refsing nú, þar sem hann var í sumar dæmdur í 10 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár fyrir þjófnaði og fíkniefnabrot. "Brot ákærða eru öll framin fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms," segir í dómnum og talið að brotin sem nú var fjallað um hefðu ekki leitt til þyngingar á þeim dómi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×