Viðskipti innlent

Gengi bréfa í Actavis rauk upp

Gengi bréfa í Actavis rauk upp í morgun eftir að tilkynnt var um kaup á bandarísku lyfjafyrirtæiki. Actavis keypti bandaríska lyfjafyrirtækið Amide í morgun fyrir þrjátíu og þrjá milljarða króna.   Amide er óskráð fjölskyldufyrirtæki og staðgreitt. Kaupin eru fjármögnuð með eigin hlutabréfum, útgáfu nýrra hluta og sambankaláni sem einnig verður notað til að endurfjármagna eldri skuldir félagsins. Sigurður Óli Ólafsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunar hjá Actavis, segir þetta hafa geysileg áhrif fyrir fyrirtækið. Þetta sé fyrsta skref inn á Bandaríkjamarkað sem sé stærsti lyfjamarkaður í heimi. Hann segir Amide, sem staðsett er í New Jersey, hafa skilað gríðarlega góðum hagnaði á undanförnum árum. Sameinað félag verður með eitt mesta lyfjaúrval á sínu sviðið í heiminum og verður nú strax með 136 lyf í þróun sem er með því mesta í heiminum í dag. Sigurður segir þetta stærstu kaup Actavis hingað til. Gengi bréfa í Actavis rauk upp í morgun eftir að kaupin höfðu verið gerð og fór gengið upp í 47,8, en var laust fyrir hádegi 45. Það er hækkun um 4,4% frá því í gær en frá því að kvisast fór út að þessi viðskipti væru í burðarliðnum og lokað var fyrir viðskipti með bréf í Actavis fyrir viku hefur gengi bréfa í fyrirtækinu hækkað um 10%.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×