Innlent

Aron gæti komið í september

Líklegt þykir að Aroni Pálma Ágústssyni verði sleppt úr fangelsi í Texas á næstunni. Þing Texas hefur samþykkt lausnarbeiðnina sem bíður nú undirskriftar ríkisstjórans. Ef allt gengur að óskum kemur Aron Pálmi til Íslands í september. Aron Pálmi var árið 1997 dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn yngri dreng, brot sem væri talið léttvægt í öðrum löndum. Síðustu árin hefur hann setið í stofufangelsi í Texas. Einar S. Einarsson, einn forsvarsmanna stuðningsnefndar Arons Pálma, segir að lausn sé í sjónmáli. Nafn Arons Pálma sé á lista yfir þá menn sem þingið í Texas leggi til að verði náðaðir. Þess sé einungis beðið að Rick Perry undirriti listann. Spurður hvort menn séu bjartsýnir á að þetta gangi í gegn segir Einar að menn séu hóflega bjartsýnir og að líkindum muni þetta ganga eftir. Inntur eftir því hvenær von sé á Aroni Pálma til landsins segir Einar að það verði örugglega fyrri hluta september en gæti orðið innan viku til tíu daga að mati lögmannsins sem hafi aðstoðað stuðningsmenn Arons Pálma vestra. Aðspurður hvort hann hafi heyrt í Aroni Pálma frá því að þessar fréttir bárust segist Einar hafa fengið tölvupóst frá honum í gærkvöldi. Hann sé ánægður með sína bættu aðstöðu, hann fái að sækja skóla og hafi eignast heilmikið af nýjum vinum, en hann þrái það heitast að koma heim til Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×