Innlent

Framleiða eðalvodka í Borgarnesi

Íslenskt eldfjallahraun og jarðhiti er nú notað til að framleiða vodka, í fyrsta sinn í sögunni. Vodkað er framleitt í Borgarnesi, en þetta er í fyrsta sinn sem vodka er eimað hérlendis. Hreina loftið og tæra vatnið í Borgarnesinu heillaði skoska fjölskyldufyrirtækið William Grant & sonum sem er einna þekktast fyrir viskíin Glenfiddich og Grant's. Eimirinn, sem var smíðaður í Skotlandi, var fluttur til landsins í byrjun árs og er nú kominn í notkun. Lögunin á eiminum er vanalega ætluð í ginframleiðslu en þessi eimir er sá eini í heiminum, svona í laginu, sem framleiðir vodka og segja framleiðendur að það gefi drykknum léttan ferskju- og apríkósukeim. Nick Woodward, sölustjóri hjá William Grant og sonum, segir að á Íslandi sé hreint vatn og loft og að eimirinn sjálfur sé sérhannaður fyrir vokdaframleiðslu. Þessir þættir og hið frábæra fólk sem vinni í verksmiðjunni geri það að verkum mjög hentug sé að framleiða vodkann hér á landi. Vodkað ber nafnið Reyka og er svokallað gæðavodka. Íslenskt hraun er notað í vinnsluferlinu en það á að koma í veg fyrir óhreinindi í vökvanum sem tappað er á flöskurnar. Gæði hráefnisins og vinnsluferlið gerir það að verkum að vodkinn verður í dýrari kantinum. Nýi drykkurinn kemur á markað í haust hér á landi, í Bandaríkjunum og á Bretlandi og það á greinilega ekki að fara fram hjá neinum hvaðan drykkurinn kemur því flaskan er merkt í bak og fyrir með teikningum af íslenskum kennileitum. Teikningar af Geysi, Heklu og lundanum prýða flöskurnar, einkenni sem íslensk auglýsingastofa aðstoðaði við að velja. Svo á eftir að koma í ljós hvort íslenski vodkinn veki svipaða athygli og íslenska vatnið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×