Innlent

Uppsagnir án rökstuðnings?

Hægt verður að segja starfsmönnum Ríkisútvarpsins upp án áminningar og málefnalegs rökstuðnings, ef fyrirtækið verður sameignarstofnun, eins og nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið gerir ráð fyrir. Þá missa þeir rétt til biðlauna. Þetta segir lögfræðingur BSRB. Gestur Jónsson, lögfræðingur BSRB, segir nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið í raun virðast hafa þann eina tilgang að skerða réttindi starfsmanna þess. Verið sé að breyta stofnun í sameignarstofnun þótt ríkið verði eini eigandinn. Þar séu menn í raun að sigla undir fölsku flaggi, enda beri ríkið áfram ótakmarkaða ábygð á rekstrinum. Gestur segir að það hljóti að vera markmiðið með þessu að breyta réttarstöðu starfsmanna RÚV. Það komi reyndar ekki glögglega fram í texta frumvarpsins sjálfs en þegar greinargerðin sé lesin sjái menn orð notuð um að nái eigi fram hagkvæmni og öðru slíku. Einnig að breyta eigi því að reglur sem gildi um aðra ríkisstarfsmenn gildi um starfsmenn RÚV. Gestur nefnir réttinn til áminningar og málefnalegs rökstuðnings fyrir uppsögn en þetta snertir ennfremur rétt til biðlauna. Gestur skilur frumvarpið þannig að rétturinn verði „tekinn úr sambandi“ og ef það sé réttur skilningur þá sé einfaldlega hægt að segja upp starfsmönnum án fyrirvara og án þess að þeir fái nein biðlaun. Gestur bendir á að Samtök opinberra starfsmanna hafi oftsinnis höfðað mál til að láta reyna á réttarstöðu starfsmanna þegar ríkisstofnunum hafi verið breytt eða þær lagðar niður. Það sé fullur vilji hjá forsvarsmönnum BSRB til að láta reyna á þetta mál fyrir dómstólum, verði frumvarpið að lögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×