Innlent

Útgáfa hafin á tryggingakortum

Útgáfa Tryggingastofnunar á evrópsku sjúkratryggingakorti er hafin. Ef Íslendingur lendir óvænt í slysi eða veikindum á ferð um Evrópu veitir kortið korthafanum rétt til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu á sama verði og heimamenn greiða. Kortið tryggir að viðkomandi greiðir aðeins hlut sjúklings í læknisþjónustu og lyfjum. Það gildir hjá heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum, apótekum og öðrum þjónustuaðilum með samninga við opinbera sjúkratryggingakerfið, en ekki þegar um er að ræða þjónustu sem veitt er á einkareknum sjúkrastofnunum sem starfa án samnings við hið opinbera. Brýnt er að þeir sem dvelja tímabundið í Evrópulandi, gæti þess ávallt að leita heilbrigðisþjónustu sem rekin er af hinu opinbera eða hjá aðilum sem hafa samninga við ríkið. Evrópska sjúkratryggingakortið er gefið út á einstaklinga, ekki fjölskyldur eins og E-111 vottorðið, og einfaldast er að sækja um kortið á heimasíðu TR, tr.is. Allir Íslendingar, og aðrir EES ríkisborgarar, sem sjúkratryggðir eru hér á landi eiga rétt á að fá evrópska sjúkratrygggingakortið til notkunar á ferðalögum til annarra EES landa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×