Viðskipti innlent

Semja við SR-mjöl og Fóðurblönduna

Eimskip hefur samið við SR-mjöl og Fóðurblönduna um að annast heildarflutninga á mjöli til og frá landinu og mun félagið festa kaup á nýju skipi í þessu skyni. Annars vegar mun Eimskip taka að sér að flytja 80 þúsund tonn af fiskimjöli árlega fyrir SR-mjöl til áfangastaða í Norður-Evrópu en hins vegar um 60 þúsund tonn árlega af fóðurmjöli til landsins fyrir Fóðurblönduna. Í tilkynningu segir að með þessu móti nái Eimskip að tengja saman flutningahagsmuni tveggja mjög öflugra fyrirtækja og bjóða þeim þannig mjög hagkvæmt flutningakerfi. Til viðbótar við stórflutningaskipið Trinket, sem Eimskip á, mun verða keypt sérstaklega annað skip til að annast þessa auknu flutninga og mun það geta flutt allt að 2.300 tonn í hverri ferð. SR-mjöl, sem er dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar, er stærsti útflytjandi á fiskimjöli frá Íslandi. Samningurinn við SR-mjöl felur í sér að Eimskip muni annast 70% af öllum flutningum á fiskimjöli á vegum fyrirtækisins til markaða í Evrópu. Eimskip hefur annast flutninga fyrir SR-mjöl og Fóðurblönduna í fjölda ára en samningarnir sem gerðir voru í dag fela í sér mun meira magn en fyrri samningar. Höskuldur H. Ólafsson, aðstoðarforstjóri Eimskips, undirritaði samningana fyrir hönd Eimskips, Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri SR-mjöls, fyrir hönd SR-mjöls og Eyjólf Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fóðurblöndunnar, fyrir hönd Fóðurblöndunnar. Samningarnir voru undirritaðir um borð í stóflutningaskipi Eimskips, Trinket.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×