Sport

Eyðir sinni síðustu orku

Landsliðsfyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen er uppgefinn eftir erfitt og langt tímabil með Chelsea. Hann hefur leikið 57 leiki í öllum keppnum í vetur en ætlar samt að gefa allt það sem hann á eftir í leikina gegn Ungverjalandi og Möltu. „Ég er mjög þreyttur eftir þetta tímabil. Það þýðir samt ekkert annað en að bíta bara á jaxlinn. Maður kemst í frí eftir viku svo ég eyði bara minni allra síðustu orku í þessa tvo landsleiki," sagði Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði landsliðsins, þegar Fréttablaðið náði tali af honum á fyrstu æfingu landsliðsins í gær. Íslenska knattspyrnulandsliðið leikur á laugardag gegn Ungverjalandi í undankeppni HM og síðan gegn Möltu fjórum dögum síðar. Báðir leikirnir verða háðir hér heima á Laugardalsvelli. Ísland hefur aðeins hlotið eitt stig í sínum riðli nú þegar fimm leikjum er lokið og er í næstneðsta sæti, hefur jafnmörg stig og Malta en betri markatölu. Landsliðið æfði á Valbjarnarvelli í gær og mun í dag æfa á Laugardalsvelli. Eiður Smári spilaði ekki með í síðasta leik Íslands í riðlinum en kemur nú aftur inn í hópinn og líst vel á komandi leiki. „Við þurfum bara að þjappa okkur vel saman og sýna það loks hvað virkilega í okkur býr." Þegar hann var spurður að því hvort liðið kæmist aftur í baráttuna með sigrum í þessum tveimur leikjum sagði hann svo ekki vera. „Því miður held ég að við séum komnir of langt frá baráttunni. Nú þurfum við bara að einbeita okkur að því að enda þessa keppni með stolti og bæta við okkur stigum á töfluna," segir Eiður Smári, sem lék heila 57 leiki á nýafstöðnu tímabili hjá Chelsea, þar af 42 í byrjunarliðinu, og því kannski skiljanlegt að einhver þreyta skuli vera til staðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×