Innlent

Átján mánaða fangelsi fyrir ýmis ofbeldisbrot

Þrjátíu og níu ára karlmaður var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær fyrir eignaspjöll, hótanir og líkamsárásir. Atvikin sem um ræðir beindust gegn fyrrverandi eiginkonu mannsins, fryrrverandi tengdaforeldrum, bróður hennar og einnig lögreglumönnum. Hann var ákærður fyrir að hafa kastað stóru grjóti inn um glugga íbúðar fyrrverandi mágs síns og einnig rispað bíl hans. Þegar lögregla hugðist yfirheyra manninn réðst hann að þeim með hnífi og stakk einn lögregluþjóninn í lærið.

Einnig hafði hann sent bæði líflátshótanir í bréfi til fyrrverandi tengdaforeldra, mágs síns og smáskilaboð til fyrrverandi eiginkonu sinnar. Hótaði hann þeim öllum bæði lífláti og líkamsmeiðingum. Hann var dæmdur af öllum ákæruatriðum og gert að sæta refsingu í átján mánuði. Einnig var honum gert að greiða allan sakarkostnað og Tryggingamiðstöðinni tæpar fimmtíu þúsund krónur fyrir skemmdir á bíl og húsnæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×