Innlent

Keppst um nýja Landspítalalóð

Fulltrúar sjö hópa sem keppa um skipulag nýrrar lóðar Landspítala við Hringbraut fengu afhenta samkeppnislýsingu í dag. Heilbrigðisráðherra segir að sameining allrar starfsemi spítalans undir eitt þak muni kosta þrjátíu og sex milljarða króna. Ágóði af sölu Símans verði líklega notaður til að fjármagna verkið. Lóðin undir húsakynnin, þar sem öll starfsemi Landspítala - Háskólasjúkrahúss verður sameinuð undir einu þaki, er tæplega sautján og hálfur hektari að stærð. Hún afmarkast að norðan af Eiríksgötu, Barónsstíg og gömlu Hringbraut, og að sunnan af nýrri Hringbraut. Sjö hópar völdust úr forvali til þess að keppa um að fá að skipuleggja verkið og samanstendur hver og einn þeirra af bæði innlendum og erlendum aðilum. Hóparnir verða að skila tillögum sínum til sjö manna dómnefndar fyrir níunda september. Dómnefndin, sem starfar undir formennsku Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, tilkynnir svo niðurstöðu sína þann sjötta október. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir að framkvæmdin við að sameina alla starfsemi Landspítalans á einn stað muni í heild sinni kosta um þrjátíu og sex milljarða króna. Fyrsti áfanginn, sem snýr að sameiningu bráðadeildanna við Hringbraut, á að kosta á milli tólf og fjórtán milljarða króna. Ágóði af sölu Símans verður líklega notaður til að fjármagna verkið. Aðspurður hvort náist sátt um það segist ráðherrann halda að víðtæk sátt sé um að ráðast í þetta verkefni.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×