Innlent

Fá verkið aldrei á sínum forsendum

"Það verður aldrei svo að þeir fái verkið á þeim forsendum sem þeir vilja jafnvel þó að þeir vinni dómsmálið," segir Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri. Íslenskir aðalverktakar hafa stefnt Vegagerðinni fyrir dómstóla og vilja að fyrra tilboð í framkvæmd Héðinsfjarðarganga, sem fram fór fyrir tveimur árum, verði áfram látið gilda. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tilkynnti fyrir skömmu að gangagerðin yrði aftur boðin út nú í haust en það eru forsvarsmenn ÍAV ekki ánægðir með. Fyrirtækið átti lægsta boð í göngin í fyrra útboði og vill að það verði látið standa jafnvel þótt því hafi verið hafnað af hálfu Vegagerðarinnar á sínum tíma. Gunnar segir niðurstöðu dómsmálsins í raun engu skipta. "Jafnvel þó að dómurinn yrði þeim í vil liggur það fyrir að farið verður í annað útboð en vera má að ÍAV verði dæmdar skaðabætur af einhverju tagi." Hann segir tilboðinu hafa verið hafnað af ýmsum ástæðum sem enn séu í fullu gildi. "Tilboð þeirra var of hátt að okkar mati þó það hafi verið það lægsta sem fram kom. Einnig lék vafi á að okkur væri heimilt að taka tilboði þeirra þar sem þar væri mögulega brotið jafnræði á bjóðendum enda gerði ÍAV ráð fyrir að hefja framkvæmdir ekki fyrr en árið 2006. Aðrir bjóðendur settu engin slík skilyrði og hefðu þá mögulega getað lækkað tilboð sín." Hjá samgönguráðuneytinu fengust þær upplýsingar að málið væri alfarið á könnu Vegagerðarinnar. Engar hugmyndir eru uppi um afskipti af málinu enda sé það enn fyrir dómstólum og engin niðurstaða fengin. Vegagerðin þurfi að hafa frjálsar heimildir til að hafna eða taka tilboðum sem berist og stofnunin verði að standa og falla með ákvörðunum sínum án þess að ráðuneytið komi þar að. - aöe



Fleiri fréttir

Sjá meira


×