Innlent

Bannað að mismuna eftir erfðum

Tryggingafélögum verður óheimilt,  frá og með næstu áramótum, að óska eftir upplýsingum um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina þeirra sem sækjast eftir líf- og sjúkdómatryggingum. Þetta kemur fram í niðurstaðu Persónuverndar um öryggi vinnslu hjá tryggingafélögum sem unnin var vegna nýrra laga um vátryggingasamninga sem taka gildi 1. janúar. Niðurstaða barst tryggingafélögunum í síðustu viku og er enn verið að skoða hvaða áhrif þetta mun hafa á líf- og sjúkdómatryggingar. Þorvarður Sæmundsson, framkvæmdastjóri Lífís, segir að ef þetta niðurstaðan standi muni þeir aðilar sem ekki hafa fjölskyldusögu, hugsanlega þurfa að borga hærra iðgjald. "Áhættumatið verður ekki eins nákvæmt og ella og áhættan dreifist því víðar." Þorvarður segir að farið verði eftir tilmælum Persónuverndar. Vegna þessara úrskurðar mun Lífís taka við vátryggingabeiðnum þar sem þessum upplýsingum er sleppt. Einnig er líklegt að iðgjald líf- og sjúkdómatrygginga hjá Tryggingamiðstöðinni muni hækka, að sögn Péturs Péturssonar, upplýsingafulltrúa Tryggingamiðstöðvarinnar. "Í grundvallaratriðum erum við ósammála Persónuvernd og teljum þetta í ósamræmi við vátryggingalög sem taka gildi um næstu áramót. Við munum leita leiða til að fá þessu breytt og munum skoða hvort farin verði dómstólaleið eða leitað til æðra stjórnvalds." Þegar sótt er um líf- eða sjúkdómatryggingu í dag er óskað eftir upplýsingum um heilsufar foreldra og systkina. Meðal annars er spurt um hjarta- eða æðasjúkdóma, geðsjúkdóma, krabbameina eða aðra sjúkdóma sem gætu verið arfgengir. Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd segir að leyfilegt verði að afla upplýsingar um heilsufar skyldmenna sem ekki tengjast arfgengum þáttum, sé þess gætt að fá samþykki skyldmennana. Hins vegar hljóti að vera leitað eftir slíkum upplýsingum til að kanna hættu á arfgengum sjúkdómum, sem verði óleyfilegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×