Innlent

Meiri forvarnir og kynfræðslu

Miklu fleiri íslenskar unglingsstúlkur verða þungaðar heldur en norrænar kynsystur þeirra. Ástæðan er ekki meira lauslæti, heldur skortur á fræðslu og þjónustu. Allt að 80% þungana unglingsstúlkna á aldrinum 15-19 ára eru ekki ráðgerðar. Með þungunum er bæði átt við fædd börn og fóstureyðingar. Á síðustu tæpum þremur áratugum hefur tíðni þunganna þessa aldurshóps lækkað og fóstureyðingum hjá fjölgað. Sóley Bender, dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, segir misjafnt hvort fólk telji þunganir unglingsstúlkna vandamál en samkvæmt rannsóknum eru ungar mæður oft í meiri vanda og eiga jafnvel við frekari sjúkdóma að stríða en þær sem eldri eru. Sóley segir að oft sé litið á þunganir unglingsstúlkna sem vandamál stúlknanna en hún segir að vandamálið sé í stærra samhengi. Sóley segir ábyrgðina einnig liggja hjá fleirum en stúlkunum, til dæmis hjá samfélaginu í sambandi við forvarnir og hjá foreldrum og þeim sem stúlkurnar hafa samband við. Þetta þurfi að skoða og hafa í huga þegar hugsað er um hvernig stúlkurnar geti tekið ábyrga afstöðu til kynlífs. Hún sagði ástæðu fyrir því að þunganatíðni er hærri hér á landi má að hluta til rekja til þess að hér var farið seinna í gang með þjónustu fyrir ungt fólk á þessu sviði heldur en t.d. í Svíþjóð. Hér á landi opnaði fyrst sérhæfð móttaka fyrir ungt fólk árið 1999 og í mörgum tilfellum er hún einungis opin takmarkaðan tíma í viku. Sóley segir að bæta þurfi þessa þjónustu hér á landi til að minnka tíðni þungana unglingstúlkna en tíðnin er hæst hér á árunum 1976-2002 sé miðað við Danmörk, Svíþjóð, Noreg og Finnland.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×