Innlent

Kjöt flutt inn frá nýsýktum svæðum

Um níutíu tonn af nautakjöti hafa verið flutt til Íslands frá ársbyrjun 2004, frá sjö löndum. Stór hluti kjötsins kemur frá löndum þar sem gin- og klaufaveikifaraldur hefur komið upp á síðustu árum. Það hefur vakið athygli að Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, hefur synjað beiðni um innflutning á nautakjöti frá Suður-Argentínu vegna gin- og klaufaveiki sem kom upp í norðurhluta landsins fyrir tveimur árum, þrátt fyrir að embætti yfirdýralæknis sjái ekkert athugavert við að flytja inn kjöt þaðan og viðurkennt sé á alþjóðavettvangi að svæðið sunnan 42. breiddargráðu, eða suðurhluti Argentínu, er og hefur verið laust við gin- og klaufaveiki. Það kjöt sem hefur verið flutt inn og hlotið náð hjá landbúnaðarráðherra hefur þó meðal annars komið frá löndum þar sem gin- og klaufaveiki hefur komið upp. Í fréttum okkar í gær svaraði landbúnaðarráðherra þessu til aðspurður hvernig á því stæði að við flyttum inn kjöt frá löndum, þar sem veikin hefur greinst, á meðan bannaður er innflutningur frá Suður-Argentínu. Guðni Ágústsson sagði orðrétt í fréttum í gær: ,,Ég kann nú ekki á allt hvaðan er verið að flytja en við verðum auðvitað að gæta okkar á öllum þessum löndum og reynum að gera það, bæði yfirdýralæknir og hans menn og við í landbúnaðarráðuneytinu. Það er skylda okkar, þetta er á okkar ábyrgð." Til glöggvunar, þá hefur frá ársbyrjun 2004 verið flutt inn nautakjöt frá Frakklandi og Hollandi, þar sem gin- og klaufaveikifaraldur kom upp árið 2001. Einnig hefur verið flutt inn frá Finnlandi, Danmörk, Ítalíu og Bandaríkjunum en áratugir eru síðan veikin hefur greinst í þeim löndum og Nýja Sjálandi, en þar hefur veikin aldrei komið upp frekar og í Suður Argentínu. Meðal þeirra röksemda sem landbúnaðarráðherra, hefur notað til að réttlæta synjun á innflutning á nautakjöti þaðan er að veikin hafi komið upp í norðurhluta landsins fyrir tveimur árum og hann vilji ekki skipta landinu í tvennt. Argentína er áttunda stærsta land í heimi og benda má á að það er um það bil jafn langt frá nyrsta hluta landsins til þess syðsta, og frá norðurhluta Afríku og að Skandinavíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×