Lífið

Yndislegu ófétin eru að koma

Rúna K. Tetzschner og Ósk Óskarsdóttir ætla að kynna hinn ævintýralega Ófétaheim í Bókasafni Garðabæjar í dag.
Rúna K. Tetzschner og Ósk Óskarsdóttir ætla að kynna hinn ævintýralega Ófétaheim í Bókasafni Garðabæjar í dag.

"Þessi bók fjallar um ófétin litlu og yndislegu sem búa í blómum og fljúga um á fiðrildum," segir Rúna K. Tetzschner, sem efnir til Ófétadagskrár í Bókasafni Garðabæjar í dag þar sem hún les upp úr nýrri bók sinni, Ófétabörnin. Jafnframt opnar hún Ófétasýningu, sem er sýning á myndskreytingum hennar við bókina.

Ósk Óskarsdóttir leikur á ýmis hljóðfæri við lesturinn. Ósk og Rúna flytja líka ófétaljóð og ófétalag með söng, tónlist og leikrænum lestri. "Í ófétaheimi eru bæði gullinhærð og svarthærð óféti," segir Rúna. "Þau eru alltaf að rífast og slást af því að svarthærðum ófétum finnst gullinhærð óféti svo skrítin, og gullinhærðum ófétum finnst þau svörtu eitthvað skrítin líka. En svo gerist það að ófétabörn komast að því að það er enginn munur á þeim nema liturinn. Þeim finnst deilurnar vera tóm vitleysa og vinna að því að koma á friði."

Rúna starfar á Þjóðminjasafninu við að rýna í gamalt letur, en hefur gert mikið af því að myndskreyta ljóð eftir ýmsa höfunda, þar á meðal sjálfa sig. Dagskráin á Bókasafni Garðabæjar hefst klukkan 17.30. Sýningin stendur til 11. nóvember, en þá kemur bókin út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×