Erlent

Kalla sendiherra sinn heim

Yfirvöld í Líbanon segja yfirgnæfandi líkur á að morðið á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra, í fyrradag hafi verið sjálfsmorðssprengjuárás. Þrátt fyrir það hafa Bandaríkjamenn kallað sendiherra sinn í Sýrlandi heim í kjölfar árásarinnar. Stjórnvöld í Washington telja líklegt að stjórnvöld í Sýrlandi hafi átt þátt í árásinni, þrátt fyrir að ráðamenn þar hafi fordæmt hana. Talsmenn utanríkisráðuneytisins í Bandaríkjunum sögðu í gær að þó að of snemmt væri að fullyrða nokkuð um aðild Sýrlendinga, hefði sendiherrann verið kallaður heim í þeim tilgangi að undirstrika mótmæli Bandaríkjanna við árásir af þessu tagi.  Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að aðgerðir stjórnvalda í Sýrlandi undanfarið væru ekki til þess fallnar að bæta samskipti þeirra við Bandaríkin. Með heimkalli sendiherrans væri vonandi búið að senda Sýrlendingum merki sem yrði til þess að þeir sæju að sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×