Erlent

Ísland flytur vopn til Íraks

Íslensk stjórnvöld hafa tekið að sér að flytja 500 tonn af vopnum og skotfærum til Íraks á vegum NATO. Davíð Oddsson utanríkisráðherra sagði í umræðum á Alþingi nú síðdegis að meginhluti af framlagi Íslands til Íraks færi þó í neyðar- og mannúðaraðstoð.  Þessar uppýsingar komu fram í utandagskrárumræðu sem Steingrímur J. Sigfússon hóf um stuðning Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita. Davíð Oddsson varð fyrir svörum og sagði stuðning Íslands við þjálfun írakskra lögreglu- og hermanna á vegum NATO felast í fyrsta lagi í því að kosta flutning á búnaði fyrir öryggissveitirnar til Íraks. „Nú liggur fyrir að Ísland muni greiða fyrir flutning með flugvélum á rúmlega 500 tonnum af vopnum og skotfærum sem Slóvenar gefa Írökum. Kostnaðurinn verður um 40 milljónir króna,“ sagði Davíð. Í öðru lagi hefur Ísland lagt rúmar tólf milljónir króna í sjóð bandalagsins sem greiðir ferðir og uppihald manna úr írökskum öryggissveitum vegna þjálfunar utanlands. Loks er Íslendingur kominn til Íraks sem starfa mun sem upplýsingafulltrúi hjá þjálfunarsveitum NATO í landinu. Næst steig Steingrímur í pontu og sagði að það væri sem sagt um að ræða 60-70 milljónir hið minnsta sem Íslendingar leggðu í hergagnaflutninga og herþjálfun í Írak. „Og bætist það þá við hið sögulega framlag okkar til Afgana að flytja þangað skriðdreka. Mikið hlýtur þjóðinni að líða betur að vita af þessu framlagi sínu,“ sagði Steingrímur. Davíð Oddsson benti að öll bandalagsríki NATO tækju þátt í þjálfun írakskra öryggissveita og gat þess að Ísland hefði varið 300 milljónum króna til mannúðaraðstoðar í Írak. Hún yrði hins vegar ekki veitt nema öryggi væri tryggt svæðinu og því þurfi hvort tveggja að fara saman. Og Davíð ítrekaði að meginhluti af framlagi Íslands til Íraks færi í neyðar- og mannúðaraðstoð, eða um 80-85%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×