Innlent

Fischer ofar í huga en varnarmál

Bobby Fischer virðist varaaðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna mun ofar í huga en varnarmálaviðræður. Hún segir eðlilegt að bandarískum diplómötum misbjóði yfirlýsingar Fischers. Framtíð varnarsamstarfsins skýrist svo vonandi sem fyrst. Ekkert hefur verið að frétta af varnarmálaviðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna um hríð og þegar Heather Conley, varaaðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, er spurð fregna, er svarið diplómatískt. Hún segist búast við að afstaða Íslendinga og Bandaríkjamanna verði gagnkvæm þegar upp verði staðið og segir að mikilvægi tengsla þjóðanna krefjist þess að viðræðurnar verði afar ítarlegar og taki til allra hliða málsins að teknu tilliti til aðstöðu beggja málsaðila. Conley segist ekki geta gert sér í hugarlund fyrir fram hver niðurstaðan verði að öðru leyti en því hve mikilvægt samningaferlið sé og hver brýnt sé að hafist verði handa sem fyrst. En það eru fleiri mál en varnarmálin sem hafa verið á dagskrá í samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna undanfarið, til dæmis Bobby Fischer. Þegar rætt er við bandaríska erindreka virðist mikill tilfinningahiti fylgja umræðunni um gyðingahatur. Aðspurð hvort það hafi áhrif á suma þeirra segir Conley að vonandi hafi það áhrif á alla. Það sé algjörlega óviðunandi og óviðeigandi en það hafi ekki verið þess vegna sem Bandaríkin hafi beðið um að Fischer yrði sendur aftur til Bandaríkjanna heldur vegna lagalegrar meðferðar. Gyðingahatur sé engu að síður óheppilegt og hún voni að allir tali gegn því sem hann segi opinberlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×