Innlent

Holræsagjald ekki lagt niður

Dælustöðin í Gufunesi er tilbúin og þar með lýkur hreinsun strandlengju borgarinnar af skólpi. Holræsagjaldið verður samt ekki fellt niður, en því var ætlað að standa straum af þessum framkvæmdum. Nærri tíu ára starfi við hreinsun strandlengunnar í Reykjavík er lokið. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri gangsetti nýja dælustöð Fráveitu Reykjavíkur í Gufunesi í dag. Steinunn sagði við það tilefni að með opnun dælustöðvarinnar væri búið að setja punktinn yfir i-ið í þessu stóra og mikla verkefni sem borgaryfirvöld hefðu hafið fyrir tæpum tíu árum. Þegar hreinsun strandlengjunnar hófst var lagður á holræsaskattur og varð hann tilefni mikilla deilna innan borgarstjórnar Reykjavíkur. Skatturinn, sem er angi af fasteignaskatti, var réttlættur með því að honum væri ætlað að standa undir kostnaði við framkvæmdir við dælustöðvar og lagnir til að koma skólpinu á haf út. Aðspurð hvort til standi að leggja holræsagjaldið niður nú þegar þessu umfangsmikla verkefni er lokið segir Steinunn að rætt hafi verið um að lækka holræasgjaldið í áföngum. Hins vegar sé kostnaðurinn við rekstur dælustöðvanna sé umtalsverður og því telji hún að holræsagjaldið verði áfram í einhverri mynd til þess að standa straum af þeim kostnaði. En hvenær mega borgarbúar eiga von á að holræsagjaldið lækki? Steinunn segir ómögulegt að segja til um það á þessari stundu. Eftir eigi að kanna rekstrarkostnaðinn af nýju dælustöðinni og öðrum og svo verði séð til með það. Tilraunamælingar á skólpi hafa staðið yfir síðustu vikur og samkvæmt mælingum umhverfissviðs borgarinnar mælist engin skólpmengun í Eiðsvík og neðan Hamarshverfis í Grafarvogi sem er mikil breyting frá því sem áður var. Fyrir neðan Hamarshverfið er því ekki lengur þörf fyrir skilti þar sem varað er við fjöruferðum vegna mengunar og afhenti borgarstjóri borgarminjaverði skiltið til varðveislu sem minjar fá liðinni tíð. Gullfiskurinn Undri hefði þó eflaust ekki látið það á sig fá að synda í sjónum áður en hann var hreinsaður nema þá vegna saltsins. Hann fannst nefnilega í skólphreinsistöðinni í Klettagörðum þar sem hann hafði minnst einu sinni farið í gegnum dælu í dælustöð áður en honum var komið til bjargar. Rólega var farið í koma honum í hreinni vistarverur og var skólpið sem hann var í smátt og smátt þynnt út með vatni. Hann býr nú við gott atlæti starfsmanna Fráveitunnar. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig Undri hóf ferð sína en skyldi einhver hafa sturtað honum niður?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×