Innlent

Svik að afnema ekki holræsagjald

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn saka Reykjavíkurlistann um kosningasvik með því að afnema ekki holræsagjaldið, sem á sínum tíma var kynnt sem tímabundinn skattur. Þeir segja að R-listinn eigi ekki að hreykja sér af hreinsun strandlengjunnar heldur skammast sín. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri tilkynnti í síðustu viku að hreinsun strandlengju borgarinnar af skólpi væri nú formlega lokið en að holræsagjaldið yrði samt ekki fellt niður þar sem því væri ætlað að standa straum af kostnaði við dælustöðvar. Borgarstjóri sagði að tæplega áratugastarf við hreinsunina væri að baki. Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, bendir á að holræsagjaldið hafi á sínum tíma verið kynntur sem tímabundinn skattur, sem R-listinn hafi nú ákveðið að hafa áfram. Hann segir að íslensku heiti þetta kosningasvik. Þá segir hann rangt að verkefnið hafi hafist þegar R-listinn hafi tekið við. Verkefnið sé mun eldra og þegar farið hafi verið af stað með það í tíð sjálfstæðismanna í borginni hafi Reykjavík verið í algjörri forystu í þessum málum. Þá hafi hins vegar ekki verið tekinn neinn skattur til verkefnisins. Guðlaugur segir enn fremur að það sé hæpið að menn hreyki sér af verkefninu því fyrir síðustu kosningar hafi R-listinn auglýst að það væri búið að hreinsa strandlengjuna. Samt sem áður hafi verið viðvörunarskilti í Hamra- og Bryggjuhverfi þar sem fólk sé varað við að fara út í fjörur út af mengun. Því ættu menn að skammast sín gagnvart íbúum þessara hverfa fremur en að hafa hátt um málið því búið sé að svíkja loforð um að ljúka þessu verkefni hvað eftir annað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×