Real Madrid tapaði enn einum leiknum í spænsku úrvalsdeildinni í gær og þeim fjórða á heimavelli í vetur, þegar liðið lá 2-1 fyrir Racing Santander. Leikmenn Real gengu af velli undir blístri og bauli áhorfenda eins og svo oft áður í vetur, en liðið á litla von um að veita erkifjendum sínum í Barcelona samkeppni um meistaratitlinn ef svo fer sem horfir.
"Við verðum að reyna að halda ró okkar. Við áttum svo sannarlega ekki von á þessu tapi í kvöld, en við verðum að reyna að jafna okkur hægt og bítandi, þó það eigi eftir að reynast mjög erfitt," sagði Emilio Butragueno, varaforseti félagsins eftir leikinn.
Real Madrid er í fjórða sæti deildarinnar, ellefu stigum á eftir toppliði Barcelona sem hefur verið gjörsamlega óstöðvandi undanfarið.