Innlent

Nýr drykkjarfontur í Elliðaárdal

Á fundi Rótarýklúbbs Árbæjar í kvöld kl. 18.30 verður vígður vatnspóstur eða drykkjarfontur í Elliðaárdal að viðstöddum fulltrúum frá Orkuveitu Reykjavíkur. Er hann staðsettur við göngustíga í dalnum rétt fyrir neðan Árbæjarkirkju. Vatnspósturinn er reistur að frumkvæði Rótarýklúbbsins og í góðu samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur Elliðaárdalinn í sérstakri umsjón sinni. Aðdragandinn að framkvæmdinni er sá að minnast skyldi tveggja tímamóta, annars vegar 100 ára afmælis Rótarýhreyfingarinnar í heiminum og hins vegar 15 ára afmælis Rótarýklúbbs Árbæjar með því að standa að verkefni í hverfinu sem íbúar þess og borgarinnar nytu góðs af. Var leitað til Orkuveitunnar um samstarf vegna umhverfisstefnu hennar og umhverfisverkefna sem hún hefur staðið fyrir í Elliðaárdalnum. Drykkjarfonturinn er hannaður af Þórði Hall, myndlistarmanni en Reynir Vilhjámsson landslagsarkitekt annaðist umhverfishönnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×