Fyrrum framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða hefur verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að draga sér rúmar 17 milljónir króna á árunum 2002 og 2003. Maðurinn játaði fjárdráttinn, en hann færði upphæðir til skuldar og endurgreiddi í mörgum greiðslum. Hæst varð skuldin rúmar 5 milljónir. Upplýst var að féð hefði maðurinn endurgreitt að fullu. Dómurinn, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Vestfjarða, var skilorðsbundinn í þrjú ár. Litið var til þess að manninum hefur ekki áður verið gerð refsing og að hann reyndi ekki að leyna fjárdrættinum. Hins vegar var refsingin þyngd vegna hárrar upphæðar og þess að brotin töldust framin í opinberu starfi.