Björgunarbátur tekur þátt í leit

Leit stendur nú yfir að 23 ára Þjóðverja sem varð viðskila við gönguhóp sinn á Hornströndum í gær. Þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað um eittleytið með 9 manns um borð og fjóra leitarhunda. Björgunarbátur frá Ísafirði er á leiðinni með 25 manns um borð og nú þegar leita björgunarmenn sem og ferðamenn að manninum. Talið er að hópurinn sem maðurinn ferðaðist með hafi verið á leið frá Hælavík yfir Hornvík þegar maðurinn týndist, en mikil þoka var á svæðinu. Óttast er um afdrif mannsins þar sem ferðaveður er slæmt, kalt og mikil rigning.