Innlent

Byrjað á göngum eftir 18 mánuði

Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hefjast eftir eitt og hálft ár. Þessi tíðindi færir samgönguráðherra Siglfirðingum á fundi sem hann boðar til um samgöngumál á Siglufirði í dag. Þetta eru í raun engar nýjar fréttir og í samræmi við yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf sumarið 2003 eftir að hafa setið undir harðri gagnrýni fyrir að fresta framkvæmdunum. Fyrir þingkosningarnar vorið 2003 höfðu stjórnvöld lýst því yfir að borun Héðinsfjarðaganga hæfist haustið 2004 og var verkið boðið út vorið 2003. Skömmu eftir kosningarnar var verkinu hins vegar slegið á frest um tvö ár og borið við yfirvofandi þensluástandi. Til að slá á reiði Siglfirðinga, sem þá braust út, lýsti rikisstjórnin því yfir í júlímánuði 2003 að Héðinsfjarðargöng yrðu boðin út haustið 2005 og verkið hafið haustið 2006. Jafnframt bauð ríkisstjórnin að verktími yrði styttur þannig að göngin yrðu tilbúin árið 2009. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 verður þetta kjarninn í þeim skilaboðum sem Sturla Böðvarsson færir fundarmönnum í Bátahúsinu á Siglufirði en þar hefst fundurinn klukkan tvö í dag. Með ráðherranum verða Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri og Hreinn Haraldsson, helsti jarðgangasérfræðingur Vegagerðarinnar. Göngin sem tengja eiga Siglufjörð og Ólafsfjörð um Héðinsfjörð verða í tvennu lagi og saman verða þau lengstu veggöng hérlendis og verkefnið í heild ein stærsta framkvæmd sem ríkið hefur lagt í. Þegar tilboð í verkið voru opnuð vorið 2003 reyndist lægsta boð vera upp á liðlega sex milljarða króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×