Erlent

Allt með kyrrum kjörum í London

Allt hefur verið með kyrrum kjörum í Lundúnum í morgun. Öryggisyfirvöld höfðu pata af því að hryðjuverkamenn hyggðu á árásir í dag en í dag eru nákvæmlega fjórar vikur síðan yfir fimmtíu manns létust í árásum á borgina. Annatíminn í almenningssamgöngum gekk vandræðalaust fyrir sig sem má hugsanlega rekja til gríðarlegrar öryggisgæslu. Þúsundir lögreglumanna eru á götum borgarinnar, gráir fyrir járnum, og leyniskyttum var komið fyrir á húsþökum víða um borgina. Lögregluyfirvöld hafa gengið svo langt að sækja lögreglumenn á eftirlaunum til starfa á nýjan leik. Í morgun voru allar neðanjarðarlestarstöðvar í London opnar í fyrsta skipti síðan sjöunda júlí þegar fyrri árásarhrinan átti sér stað. Lögreglustjóri New York borgar greindi frá því í gærkvöldi að sprengjurnar, sem notaðar voru í þeirri árás, hafi verið einfaldar og gerður úr efnum sem finna mætti á næstu hárgreiðslustofu eða byggingavöruverslun. Meðal efna sem notuð voru til smíði þeirra voru hárbleikiefni til að setja strípur í hár og svo efni lík rotvarnarefnum. Sprengjurnar hafi verið sprengdar með farsímahringingu. Bretar eru ekki ánægðir með að greint hafi verið frá þessu og óttast jafnframt að þessar einföldu sprengjur þýði að hryðjuverkamenn eigi auðvelt með að setja þær saman. Þeir geti því ráðist á skotmörk í Lundúnum, þá líkast til önnur en almenningsfarartæki þar sem öryggiseftirlit er mikið. Í seinni hrinu árásanna voru sprengjurnar enn einfaldari, samkvæmt því sem ítalskir fjölmiðlar fullyrða að Osman Hussain hafi sagt við yfirheyrslur. Hann mun hafa sagt að í bakpokanum sínum hafi verið hvellhetta til að búa til hvell og svo hveiti, en ekkert annað. Breska lögreglan vísar þessu hins vegar á bug.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×