Innlent

Kapphlaup um jarðir í Kelduhverfi

Hreppsnefnd Kelduneshrepps hefur samþykkt tilboð þriggja forsvarsmanna Húsavíkurbæjar og eiginkvenna þeirra í jörðina Eyvindarstaði í Kelduhverfi, sex milljónir króna. Alls bárust sex tilboð í jörðina og átti Lífsval ehf. næst hæsta tilboðið, 5,2 milljónir króna, en fyrirtækið hefur á undanförnum misserum keypt jarðir vítt og breitt um landið. Þeir stjórnendur Húsavíkurbæjar sem áttu hæsta tilboðið í Eyvindarstaði eru: Reinhard Reynisson bæjarstjóri, Hreinn Hjartarson veitustjóri Orkuveitu Húsavíkur og bróðir hans Gaukur Hjartarson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdaráðs Húsavíkurbæjar. Engar fasteignir eru á Eyvindarstöðum en jörðin er um 400 hektarar að stærð og henni fylgja smávægileg veiðiréttindi í Litluá. Hreinn Hjartarson segir að nýir eigendur hyggist stofna félag um rekstur sumarhúsabyggðar á jörðinni og ýmist selja eða leigja út stórar sumarhúsalóðir. "Jörðin er í miðju Kelduhverfi, um fimmtíu kílómetra frá Húsavík og átta kílómetra frá Ásbyrgi og því vel staðsett með tilliti til sumarhúsabyggðar. Líklega verða þar 20 til 30 sumarhúsalóðir en hluti svæðisins fer undir skógrækt," segir Hreinn. Ingvar J. Karlsson, einn eigenda Lífsvals, segir félagið eiga nú þegar tvær jarðir í Kelduhverfi, Garð eitt og Garð tvö. "Samanlagt eru þessar tvær jarðir fleiri þúsund hektarar að stærð. Veiðiréttur í Litluá fylgir þeim báðum og tilgangurinn með því að bjóða í Eyvindarstaði var að auka okkar hlut í ánni. Það er vel hugsanlegt að við bjóðum í fleiri jarðir í Kelduhverfi með það fyrir augum að auka notkunarmöguleika jarðanna og réttlæta fjárfestingar á svæðinu," segir Ingvar. Veiðifélagið Laxá selur veiðileyfi í Litluá og segir Ágúst Karl Ágústsson að í Litluá sé mikið af vænum urriða og bleikju. "Litlaá er eitt af best varðveittu leyndarmálum Norðurlands hvað snertir urriða- og bleikjuveiði," segir Ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×